vítahringur

já mikið rétt. meðvirkni getur birst á mismunandi hátt.  ætli það sé ekki eins misjafnt eins og við erum mörg.  en það sem kemur mér mest á óvart er hvað ég verð rosalega kvíðin og öfugsnúin við að lesa þessa bók.  það er svo margt í henni sem passar við mig.  hlutir sem ég hef ekki sett í neitt samhengi við meðvirkni.  svo kemur hringrás hugsana, svo finnur maður hvernig kvíðinn magnast upp og er orðin að stórum hnút í maganum, þangað til að maður er komin með eitt gott panic kast. 

en af hverju er ég þá að lesa þetta???? jú ég held að hluti af þessu kvíðakasti sé að maður á erfitt með að horfast í augu við í hvaða ástandi maður raunverulega er.  þetta hljómar kannski öfugsnúið en til að finna sjálfan sig þarna einhversstaðar í hugsanaflóðinu, þá þarf maður að horfast í augu við hvar maður er í dag, og það er ansi erfitt því þá vaknar meðvirkninn upp í manni, parturinn sem hefur alltaf talið manni trú um að mínar tilfinningar, mínar þarfir, mínir draumar skipti ekki máli, heldur verði ég alltaf að sinna þörfum annarra og gera allt til að öllum öðrum líði vel jafnvel þó að það henti ekki mínum þörfum og mínu lífi.  þetta er einn stór vítahringur.

það er svo margt sem mig langar til að skrifa, svo margt sem mig langar til að koma frá mér, en ég kem því ekki, því hugsanaflóðið er svo griðarlegt að ég næ ekki að einbeita mér að neinu einu heldur kemur allt í belg og biðu upp í hausnum á mér, allt hringsnýst og mér verður óglatt, með kvíða, og svima. 

en ég hlýt að komast í gegnum þetta.  bara halda áfram að lesa og ekki gefast upp. 


hvernig skilgreinir þú meðvirkni?

í bókinni eru spurningar sem maður er hvattur til að svara og ég ætla að gera það hér (allavega sumum þeirra).

í mínum huga (eftir að hafa lesið eitt og annað) er meðvirkni þegar  maður er orðin of upptekin við að stjórna og hafa áhyggjur af lífi annarra, þannig að það hefur neikvæð áhrif á mitt líf.  maður hefur of mikla ábyrgðarkennd gagnvart öllum mögulegum sem ómögulegum hlutum, og oftar en ekki eru það hlutir/atriði sem maður hefur enga aðstöðu til að hafa áhrif á.  maður hefur áhyggjur af því hvernig foreldrar, systkyni, vinir lifa sínu lífi.  maður gerir allt of miklar kröfur til sjálfs sín, kröfur sem maður myndi ekki ætla neinum öðrum að geta uppfylt.  á sama tíma er sjálfsálitið í algjöru lágmarki og maður er alltaf að reyna að auka við sjálfsálitið sitt með því að hjálpa öðrum með þeirra verkefni.  vera góður, vera alltaf til staðar fyrir alla.  en á sama tíma lætur maður sjálfan sig og sínar þarfir sitja á hakanum.

ég lærði fyrir nokkrum árum síðan að það er ekki á mína ábyrgð hvernig foreldrar mínir og systur lifa.  ef þau kjósa að drekka, þá verða þau bara að gera það.  þetta var mjög erfitt fyrir mig, og ég þurfti að draga mig meira út úr stórfjölskyldunni til að geta sætt mig við þetta.  stundum velti ég fyrir mér hvort þetta hafi verið rétt ákvörðun, því að ég upplifi mig oft enn einangraðri en áður.  en ég held að það sé ástæða fyrir því og hún er sú að þetta var bara eitt atriði af mörgum sem ég þarf að taka á.  ég er rétt að byrja í þessari löngu göngu.


meðvirkill

ég er meðvirkill.  hvað er það gætu einhverjir hugsað..... jú meðvirkill er einstaklingur sem er meðvirkur.....

meðvirkni:  meðvirk er sú mannvera sem hefur látið hegðun annarrar manneskju hafa áhrif á sig og er jafnframt heltekin af því að stjórna hegðun hennar.

ég er sumsé að lesa bók sem heitir "aldrei aftur meðvirkni" og er þessi skilgreining  tekin úr þeirri ágætu bók.

ég hef svo sem lengi vitað að ég væri meðvirk, en ég hef aldrei gert neitt í því til að laga það ástand fyrr en nú.  ég fer hægt af stað, en eins og sagt er: kemst þótt hægt fari.  ég er að lesa  fyrrgreinda bók, hef farið á einn al-anon fund og á eftir að gera upp við mig hvort ég fari á fleiri.  held þó að maður hafi nú alveg gott af því.

en sumsé, mig langar að tjá mig hérna um allt milli himins og jarðar sem viðkemur þessu efni, og vafalaust kemur eitthvað annað til með að fljóta hérna inn á milli líka.  læt þetta duga í bili, until next time...............

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband